Messuhöklar & altarisklæði

Í tilefni af 90 ára afmæli Herders Andersson 23. nóvember 2023 kom út bókin Messuhöklar og altarisklæði.
Bókin er með myndum af þeim þrettán höklum og þremur altarisklæðum sem Herder saumaði og varðveitt eru á Íslandi. Fyrsta altarisklæðið gaf hann Langholtskirkju haustið 2006 og síðar sama ár saumaði hann fyrsta messuhökulinn.
Alls hannaði Herder og saumaði í höndunum 27 messuhökla og þrjú altarisklæði, flest á árunum 2006–2011, sem eru í eigu presta og kirkna hér á landi og í Svíþjóð. Slík listiðja eins manns er fágætt ef ekki einstakt afrek, enda sat Herder og saumaði svo að segja alla daga frá morgni til kvölds á þessum árum. Sýningar á messuhöklunum hafa verið haldnar í Langholtskirkju, Norræna húsinu í Reykjavík og í Skara dómkirkju í Svíþjóð.
Þorvaldur Kristinsson ritstýrir bókinni. Herder segir frá lífi sínu og störfum í Svíþjóð og hér á landi. Þar kemur fram að Herder fékkst mikið við hannyrðir frá barnsaldri og fullorðinn sótti hann nám í fatahönnun og tískuteiknun í Stokkhólmi. Þá stundaði hann ballettnám í sjö ár, lauk kennaraprófi í þeirri grein og kenndi listdans bæði í Svíþjóð og hér á landi.

Kirkju sótti Herder á hverjum sunnudegi frá barnsaldri og hefur kristin trú ávallt verið veigamikill þáttur í lífi hans. Herder óf og saumaði, teiknaði og málaði myndir og samdi 10 skáldsögur og gaf út.
Kári Sverrisson ljósmyndaði höklana og altarisklæðin af mikilli fagmennsku. Kristín Gunnarsdóttir annaðist kápuhönnun og umbrot. Bókin er prentuð í Litrófi. Herder gaf bókina út sjálfur. Bókin verður ekki til sölu í almennum bókabúðum en verður á boðstólum í Kirkjuhúsinu fyrir 5000 krónur. Hægt er að senda fyrirspurn um bókina hér á vefsíðunni.