Um Herder

Messuhöklar og altarisklæði

Herder Andersson fæddist árið 1933 og ólst upp frá sex ára aldri í sjávarbænum Lysekil á vesturströnd Svíþjóðar. Hann lést í Reykjavík 3. ferúar 2024. Frá barnsaldri sótti hann kirkju á hverjum sunnudegi og hefði helst viljað læra til prests ef hann hefði haft tök á. Snemma áttu hvers kyns hannyrðir hug hans allan. Ungur hélt hann til Stokkhólms til að leita sér menntunar og greip öll tækifæri sem gáfust ungum alþýðupilti en bjó oft við þröngan kost. Í Stokkhólmi kynntist hann verðandi sambýlismanni sínum, Íslendingnum Guðbrandi Hlíðar dýralækni, og saman fluttust þeir til Íslands árið 1958, árið sem Herder varð 25 ára.

Í Stokkhólmi nam Herder klassískan ballett í sjö ár og lauk kennaraprófi í þeirri grein við frægan skóla Madame Lilian Carina sem var einn virtasti ballettkennari Svía um miðja 20. öld. Einnig stundaði hann nám í fatahönnun og tískuteiknun og lauk prófi í þeirri grein við Háskólann í Stokkhólmi. Sú menntun átti eftir að koma að góðu gagni þegar kom að því sníða og sauma messuhökla.

Í tilefni af 90 ára afmæli Herders, 23.nóvember 2023, kom út bók með ljósmyndum af höklum og messuklæðum sem Herder saumaði á árunum 2006 – 2014. Alls saumaði hann 27 hökla á þessum árum og eru 13 þeirra varðveittir í kirkjum á Íslandi og 14 í kirkjum í Svíþjóð. Í bókinni gefur að líta alla þá hökla sem varðveittir eru í kirkjum á Íslandi og einnig þremur altarisklæðum sem hann saumaði. Þar má einnig lesa ítarlega frásögn Herders af lífshlaupi sínu og listavinnu.

Um listiðju sína segir Herder:
„Þegar ég lít til baka spyr ég mig stundum hvort ég hafi verið með fullri meðvitund við saumaskapinn — þótt ég væri glaðvakandi. Nálin fetaði bara sína leið í mjúku og stöðugu flæði. Saumaskapurinn var mín hugleiðsla. Ég teiknaði ævinlega skissur af því sem ég sá fyrir mér eða hafði í huga, gaf mér góðan tíma til leita að hugmyndum með blýant og skissubók í hendi og forðaðist þá að elta eldri fyrirmyndir í kirkjuklæðum. Smám saman skírðust hugmyndirnar í kollinum en tóku oft óvæntum breytingum þegar saumaskapurinn hófst. Öll spor hafði ég lært af sjálfum mér ef svo má segja með því að rýna í eldri útsaum, ég man ekki til þess að hafa nokkurn tíma opnað kennslubók til að glöggva mig á spori í saumaskap. Þekkingin á efni og áferð kom sér líka vel þegar ég hóf að sauma höklana. Oftast valdi ég satín eða velúr, stundum silki, og þá kom kunnáttan úr náminu í fatahönnun að góðum notum, hvaða eiginleika hvert efni hafi til að bera svo að það lifni fyrir augum kirkjugesta.
Litina sótti ég aðallega í liti kirkjuársins og allir hafa þeir sína táknrænu merkingu. Stundum leyfði ég mér nokkurt frelsi þar, saumaði til dæmis eitt sinn rósóttan hökul, í anda sumars og gróanda. Þræðina í saumaskapinn valdi ég eftir mikla og vandlega íhugun og hafði þá ýmsar þykktir undir höndum, allt eftir því hversu stór sporin voru. Að saumaskapnum loknum var svo komið að því að fóðra hökulinn og koma fyrir rennilás á vinstri öxl og auðvitað gerði ég það allt í höndunum. Ég á ekki saumavél. Öll sporin mín eru vinna handanna, kirkjuklæði á að sauma í höndunum, og það hefur djúpa merkingu fyrir mér. Hvert spor er mín litla gjöf og geymir sinn skammt af auðmýkt og þakklæti fyrir lífið og samferðafólk mitt.“

Swedish

Herder Andersson föddes i 1933 och växte upp från sex års ålder i Lysekil på Sveriges västkust, känt för sina badorten. Från sin unga barndom gick han i kyrkan varje söndag och även då upptog allt möjligt handarbete hans sinne. När han var ung flyttade han till Stockholm för att söka utbildning och tog alla tillfällen som fanns för en ung gemene man, men där var han ofta tvungen att leva på en knapp budget… Läs mer

English

Herder Andersson was born in 1933 and brought up from the age of six in the seaside town of Lysekil on the west coast of Sweden. As a young child he attended church every Sunday and early on he developed a passion for every type of needlecraft. As a youth he went to Stockholm to seek an education and took advantage of every opportunity available to a working class boy, although money was often tight… Read more